Íslendingabók -

Um Íslendingabók

Íslendingabók er gagnagrunnur sem hefur að geyma upplýsingar um ættir nær allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Þar má finna yfir 950.000 einstaklinga allt frá landnámi til okkar daga. Um 95% allra Íslendinga sem uppi hafa verið frá því að Manntalið 1703 var skráð hér á landi er að finna í Íslendingabók. Einnig má finna einstaklinga allt aftur til landnáms ef þeirra er getið í heimildum.

Upphafið að Íslendingabók má rekja aftur til ársins 1988 þegar Friðrik Skúlason hóf að skrá ættfræðiupplýsingar í ættfræðiforrit sitt Espólín. Íslensk erfðagreining og Friðrik Skúlason hófu samstarf um gerð Íslendingabókar árið 1997 meðal annars með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingar við rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar.

Í Íslendingabók má finna yfir 120.000 einstaklinga sem fæddir eru á 21. öld og yfir 470.000 einstaklinga fædda á 20. öld. Fjöldi einstaklinga frá 19. öld er um 200.000. Verkið er enn í vinnslu og við þiggjum með þökkum allar ábendingar sem komið geta að notum fyrir Íslendingabók.