Íslendingabók -

Notendaskilmálar

fyrir vefsíðuna islendingabok.is og gagnagrunninn Íslendingabók.

1. Almennt

Íslensk erfðagreining ehf. og Friðrik Skúlason ehf. (hér eftir sameiginlega nefnd „rétthafar“), halda úti vefsíðunni islendingabok.is (hér eftir „vefsíðan“), sem veitir aðgang að gagnagrunninum Íslendingabók. Vefsíðan og Íslendingabók eru eign rétthafa. Upplýsingar um ættir Íslendinga sem birtar eru á vefsíðunni eru almennar lýðfræðiupplýsingar unnar úr opinberum heimildum. Til að fá aðgang að Íslendingabók sækir þú um notandanafn og lykilorð (hér eftir „aðgangsskilríki“) eða notar rafræn skilríki til innskráningar (hér einnig nefnd „aðgangsskilríki“). Aðgangsskilríkin veita sérsniðinn aðgang að ættfræðiupplýsingum þínum.

2. Skilmálar

Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkunarskilmála þessa sem gilda um aðgang og notkun vefsíðunnar islendingabok.is og gagnagrunnsins Íslendingabókar (hér eftir „skilmálar“) og lýsir því jafnframt yfir að þú sért bundin(n) af þeim. Þú ábyrgist að hafa heimild að lögum til að samþykkja skilmálana fyrir þína hönd eða þess aðila sem þú kemur fram fyrir.

Í samræmi við ákvæði lögræðislaga þarf lögráðamaður að samþykkja að einstaklingur sem ekki er lögráða nýti sér vefsíðuna. Aðgangsskilríki sem sótt er um fyrir ólögráða einstakling verða send þeim einstaklingi sem hefur fjölskyldunúmer barnsins að kennitölu. Litið er á afhendingu aðgangsskilríkja til barnsins sem samþykki fyrir aðgangi þess að vefsíðunni. Meðferð aðgangsskilríkja og öll notkun vefsíðunnar eru á ábyrgð lögráðamanns.

Heimild til aðgangs að vefsíðunni og Íslendingabók með aðgangsskilríkjum er bundin þeim einstaklingi sem þau eru gefin út til. Óheimilt er að afhenda eða framselja aðgangsskilríkin öðrum einstaklingum.

Um vefsíðuna, aðgang og notkun á henni gilda íslensk lög. Varnarþing vegna hugsanlegra ágreiningsmála er Héraðsdómur Reykjavíkur. Rétthafar áskilja sér rétt til að loka fyrir aðgang að vefsíðunni í heild eða hluta hvenær sem er og án fyrirvara.

3. Takmörkun ábyrgðar

Rétthafar skulu ekki vera ábyrgir fyrir tjóni af neinu tagi sem þú eða aðrir kunna að verða fyrir vegna, eða í tengslum við notkun þína á vefsíðunni eða upplýsingum úr Íslendingabók. Í þessu sambandi skal sérstaklega tekið fram að rétthafar bera enga bótaábyrgð vegna tjóns af nokkru tagi sem kann að verða vegna þess að upplýsingar á vefsíðunni reynast rangar, óáreiðanlegar, óheppilegar og /eða ekki tæmandi. Rétthafar taka enga ábyrgð á því að upplýsingar í Íslendingabók séu réttar. Rétthafar bera ekki ábyrgð á brotum á höfundar- eða sæmdarrétti ljósmynda sem notendur vista í Íslendingabók.

4. Notkun

Heimilt er að skoða, vista og afrita upplýsingar úr Íslendingabók til einkanota. Upplýsingar úr Íslendingabók má einnig nota til að vinna og staðfesta ættfræðiupplýsingar við útgáfu hefðbundinna prentaðra ættfræðirita og æviskráa. Geta skal heimildar ef slíkar upplýsingar eru gerðar opinberar með einhverjum hætti, svo sem með útgáfu á bókarformi eða birtingu í blöðum, á vefsíðum, samfélagsmiðlum eða í tímaritum. Heimilt er að tengja vefsíðuna við aðrar vefsíður með krækju. Rétthafar áskilja sér rétt til að afturkalla slíka heimild hvenær sem er. Notkun hugbúnaðar á vefsíðunni er heimil að því marki sem hún er nauðsynleg til að framkvæma aðgerðir sem leyfðar eru á vefsíðunni skv. skilmálunum.

Óheimilt er að gera vefsíðuna að hluta af annarri vefsíðu án skriflegs samþykkis rétthafa.

Óheimilt er að nota upplýsingar fengnar úr Íslendingabók til þess að smíða gagnagrunn á tölvutæku formi. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting hluta af Íslendingabók er óheimil, jafnvel þótt óveruleg sé, ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu Íslendingabókar í tengslum við vefsíðuna, eða ganga gegn hagsmunum rétthafa.

5. Ljósmyndir og æviágrip

Ljósmyndir sem notandi vistar á vefsíðunni eru á ábyrgð notandans. Með því að vista mynd á vefsíðunni lýsir þú því yfir að þú eigir höfundarrétt að myndinni eða hafir heimild rétthafa til að vista myndina á islendingabok.is til skoðunar af öðrum notendum og til opinberrar birtingar. Æviágrip og annar ritaður texti sem notandi vistar á vefsíðunni er á ábyrgð notandans. Innihald og efnistök æviágripa og annars texta eru jafnframt á ábyrgð notandans. Með því að vista æviágrip á vefsíðunni lýsir þú því yfir að vera höfundur textans eða hafa heimild rétthafa til vistunar textans á islendingabok.is. Með því að vista ljósmynd eða texta á vefsíðunni heimilar þú rétthöfum Íslendingabókar að birta efnið á vefsíðunni. Ljósmyndir, æviágrip og annar texti sem þú vistar á islendingabok.is eru sýnileg öðrum notendum vefsíðunnar samkvæmt reglum sem rétthafar Íslendingabókar setja. Rétthafar áskilja sér rétt til að fjarlægja ljósmyndir, æviágrip eða annað efni af vefsíðunni án fyrirvara. Notandi ber ábyrgð á öllu tjóni sem rétthafi kann að verða fyrir vegna krafna höfundarréttarhafa sem leiða af óheimilli vistun og birtingu notanda á höfundarréttarvörðu efni á vefsíðunni.

6. Lögvernd

Vefsíðan og Íslendingabók, þar á meðal vörumerki, þjónustumerki, viðskiptaheiti, tölvuforrit, vinnsluaðferðir og notendaviðmót eru vernduð af íslenskum og erlendum lögum og reglum um hugverka- og einkaréttindi, þar með talið af höfundalögum nr. 73/1972, lögum um vörumerki, nr. 45/1997, lögum um einkaleyfi nr. 17/1991 og alþjóðlegum sáttmálum á sviði hugverka- og einkaréttinda.

Upplýsingar sem skráðar eru í Íslendingabók eru staðreyndir í almannaeigu sem meðal annars eru unnar eru úr opinberum ættfræðiupplýsingum og njóta því sem slíkar ekki verndar höfundarréttar. Íslendingabók nýtur hinsvegar lögverndar sem gagnagrunnur samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum, samanber einnig alþjóðlegar reglur um sama efni, svo sem tilskipun Evrópusambandsins um lögverndun gagnagrunna nr. 96/9/EB.