Íslendingabók -

Algengar spurningar

Get ég fengið aðgangsupplýsingarnar sendar í tölvupósti?

Þegar sótt er um aðgang að Íslendingabók í fyrsta sinn er ekki hægt að fá aðgangsupplýsingar sendar með tölvupósti. Hins vegar geta notendur skráð netföng sín á vefsíðunni eftir að þeir hafa fengið aðgang hjá okkur og þannig tryggt að þeir geti í framtíðinni fengið ný lykilorð eða haft samskipti í gegnum tölvupóst. Undir valhnappinum efst hægra megin á síðunni finnur þú „Stillingar“. Með því að smella þar getur þú skráð netfangið þitt.

Hvar finn ég aðgangsupplýsingar í netbanka?

Í netbönkum finnast upplýsingar ýmist undir „Netyfirlit“ eða „Rafræn“ skjöl.

Athugið að aðgangsupplýsingar fyrir börn undir 18 ára aldri eru sendar í netbanka forráðamanns.

Ég er búin(n) að týna lykilorðinu mínu. Hvað á ég að gera?

Hægt er nota rafræn skilríki eða sækja um notandanafn að nýju.

Þegar notandi hefur tengst Íslendingabók hefur hann möguleika á að skrá netfang sitt með því að smella á hnappinn „Stillingar“. Þeir notendur sem hafa skráð netfang sitt geta fengið nýtt lykilorð sent með tölvupósti og því eru allir notendur hvattir til þess að skrá netfang sitt á síðunni.

Rangt notandanafn eða lykilorð. Hvað get ég gert?

Í fyrsta lagi skal athuga hvort notandanafn og lykilorð hafi verið rétt slegin inn. Athugið að engir íslenskir stafir eru í notandanafni, sbr. „í“, „ú“, „ð“, og að það er eitt bil á milli lykilorðanna. Hvort tveggja skal skrifa með lágstöfum.

Einnig gætu stillingar í tölvu notandans verið til vandræða. Hún þarf að heimila notkun á kökum (e. cookies). Hugsanlega þarf að eyða kökum af vélinni.

Sumar leitarvélar hafa valdið vandræðum í tengslum við Íslendingabók, best er að slá slóðina www.islendingabok.is beint inn í netfangsreit vafrans.

Hafið í huga að ef aðgangsupplýsingarnar eru slegnar fimm sinnum vitlaust inn er lokað fyrir aðganginn í 6 klst.

Hægt er að sækja um nýjar aðgangsupplýsingar inni á vefsíðunni og fá þær sendar í heimabanka eða á netfang notanda sé það skráð hjá Íslendingabók. 

Ég er búsett(ur) erlendis. Hvernig fæ ég aðgang?

Útsending notendanafna og lykilorða byggir á heimilisföngum í þjóðskrá.

Þeir Íslendingar sem búsettir eru erlendis eiga þrjá valmöguleika til að fá aðgang að Íslendingabók:

Þeir sem eiga rafræn auðkenni geta nýtt sér þau til að fá aðgang.

Hægt er að senda tölvupóst á islendingabok@islendingabok.is með upplýsingum um kennitölu og tilnefna einhvern nákominn ættingja á Íslandi sem viðtakanda bréfs með notandanafni og lykilorði.

Loks er mögulegt að hafa samband við þjóðskrá og tilnefna umboðsmann hér á landi. Í þeim tilfellum sem umsækjandi er búsettur erlendis en með skráðan umboðsmann á Íslandi í þjóðskrá, eru aðgangsupplýsingarnar sendar á lögheimili umboðsmannsins.

Hvers vegna er ég ekki tengd(ur) við báða foreldra?

Meginhluti upplýsinga um tengingar milli núlifandi einstaklinga er fenginn úr búsetuskrá þjóðskrár. Séu foreldrar barna ekki giftir eða í skráðri sambúð eru börn eingöngu tengd í þjóðskrá við það foreldri sem þau búa hjá. Þar sem kirkjubækur eru ekki aðgengilegar fyrr en 50 árum eftir síðustu færslu í þær þá höfum við í mörgum tilfellum ekki upplýsingar um annað foreldrið. Við þiggjum hins vegar með þökkum upplýsingar um foreldra barna frá nánustu aðstandendum.

Hvernig takið þið á ættleiðingarmálum?

Í Íslendingabók eru einstaklingar tengdir foreldrum sínum eftir bestu fáanlegum heimildum. Í flestum tilfellum er stuðst við þjóðskrá, kirkjubækur, manntöl eða útgefin ættfræðirit. Leitast er við að koma til móts við óskir ættleiddra einstaklinga við birtingu upplýsinga í Íslendingabók.

Ættleiddur einstaklingur getur valið um að birtast á vefnum annaðhvort sem barn blóðforeldra sinna eða kjörforeldra.

Ef ættleiddur einstaklingur er tengdur blóðforeldrum sínum getur hann jafnframt fengið aðgang að ættum kjörforeldra sinna sé þess óskað með því að smella á nöfn þeirra í textaglugga sínum.

Ættleiddi einstaklingurinn ræður því hvernig tengingum við foreldra er háttað, en forráðamaður hans, sé einstaklingurinn undir lögaldri. Þó er viðurkennt að réttur blóðforeldris sem ekki vill tengjast ættleiddu barni sé ávallt sterkari en vilji barnsins til tengingar.

Komi fram óskir um breytingar á tengingum ættleiddra einstaklinga er brugðist við þeim eins fljótt og mögulegt er. Hægt er að koma upplýsingum á framfæri í gegnum hnappinn „Ábendingar“.

Engir aðrir geta hlutast til um það hvernig ættfærslur ættleiddra einstaklinga birtast, hvorki börn, barnabörn, makar, systkini eða aðrir ættingjar.

Hvar birtist andlitsmyndin mín?

Andlitsmyndin birtist á upplýsingasíðunni þinni. Auk þess birtist hún í samrakningum og leitarniðurstöðum hjá notendum Íslendingabókar.

Hverjir geta séð myndirnar mínar?

Myndir sem þú setur inn á Íslendingabók eru aðeins sýnilegar nánustu fjölskyldu. Andlitsmyndin þín birtist þó í leitarniðurstöðum og samrakningu hjá öðrum notendum Íslendingabókar.

Af hverju er ekki getið um nákvæman fæðingarstað?

Upplýsingar um fæðingarstaði núlifandi einstaklinga eru í flestum tilfellum fengnar úr þjóðskrá. Þjóðskrá veitir upplýsingar um fæðingarsýslu, kaupstað eða land ef einstaklingur er fæddur erlendis. Ef fram koma óskir um nákvæmari staðsetningu þá þiggjum við slíkar upplýsingar með þökkum.

Af hverju er ósamræmi í tölfræðinni minni?

Ef rýnt er í fjölda fæðingarstaða í móður- og föðurætt og þær tölur bornar saman við báðar ættir þá sést að heildartalan er ekki alltaf samtala af móður- og föðurætt. Þetta stafar af því að innskráður einstaklingur, systkini hans og afkomendur þeirra eru taldir með, bæði í móður- og föðurætt.

Get ég breytt tengingu við foreldra á grundvelli erfðaprófs?

Ef beiðni berst um breytingu á tengingu við foreldra í Íslendingabók á grundvelli erfðaprófs þá óskum við eftir afriti af niðurstöðum frá viðurkenndum rannsóknaraðila, þar sem auðkenning var notuð við sýnatöku og kennitölur eru tilgreindar í niðurstöðum. Erfðaprófið þarf jafnframt að uppfylla ströng skilyrði um áreiðanleika og gæði, svo niðurstaðan sé óumdeild. Senda þarf beiðnina í gegnum ábendingar á vefsíðu Íslendingabókar svo ljóst sé að hún berist frá þeim einstaklingi sem málið varðar.