Íslendingabók -

Leiðbeiningar

Skráning

Aðeins þeir sem hafa íslenska kennitölu geta óskað eftir aðgangi að Íslendingabók.

Hægt er fá aðgang að Íslendingabók í gegnum rafræn skilríki eða með því að sækja um notandanafn og lykilorð.

Notanda er boðið að velja hvort hann fær aðgangsupplýsingar (notandanafn og lykilorð) sendar í pósti á lögheimili eða í netbanka. Upplýsingar um heimilisföng eru fengnar úr þjóðskrá.

Þjóðskrá skra@skra.is http://www.skra.is

Ef umsækjandi um aðgang að Íslendingabók er undir 18 ára aldri eru aðgangsupplýsingarnar sendar forráðamanni barnsins. Stuðst er við fjölskyldunúmer þjóðskrár og aðgangsupplýsingarnar sendar þeim sem hefur fjölskyldunúmer barnsins að kennitölu.

Ef aðgangsupplýsingarnar glatast er hægt að sækja aftur um aðgang og fá ný lykilorð send í netbanka eða með tölvupósti. Til að geta fengið nýjar aðgangsupplýsingar í tölvupósti er notendum bent á að skrá netfang á síðunni „Stillingar“. 

Íslendingum sem búsettir eru erlendis er bent á að hægt er að fá aðgangsupplýsingar sendar til umboðsmanns hér á landi en þá þurfum við að fá nafn hans og heimilisfang.

Fyrstu skrefin

Þegar notendur hafa fengið aðgangsupplýsingar þarf aðeins að slá inn notandanafn og lykilorð á forsíðu og er notendum þá vísað á upphafssíðu þeirra í Íslendingabók.

Upphafssíðan býður upp á fjóra valmöguleika. Hægt er að hefja leit að einstaklingi, velja upplýsingasíðu, skoða framætt eða tölfræði um ættina þína.

Leitarvalmynd Íslendingabókar gerir notendum kleift að leita í allri Íslendingabók eftir nafni og fæðingardegi. Leit er alltaf aðgengileg skráðum notendum. Í leitarniðurstöðum eru þeir einstaklingar feitletraðir sem notendur hafa aðgang að en það er nánasta fjölskylda, forfeður og einstaklingar fæddir fyrir 1700. Hægt er að rekja sig saman við alla einstaklinga úr leitarniðurstöðum með því að smella á táknmyndina fyrir samrakningu sem birtist við hverja færslu. Nánar er fjallað um leitarvalmöguleika Íslendingabókar í kaflanum „Leit í Íslendingabók“ neðar á síðunni.

Upplýsingasíðan sýnir þær upplýsingar sem skráðar eru um notandann í Íslendingabók. Hver notandi hefur aðgang að upplýsingasíðum um nánustu ættingja aftur í þriðja lið og afkomendur þeirra og alla sem fæddir eru fyrir árið 1700. Á upplýsingasíðunum kemur fram fullt nafn einstaklings, fæðingardagur og dánardægur ef við á, nöfn foreldra, systkina, maka og barna. Vísað er til heimilda og í eldri skráningum birtist gjarna stutt textabrot úr heimildum. Á upplýsingasíðum er jafnframt hægt að setja inn myndir og skrá æviágrip.

Stillingar

Hægt er að skrá netfang, breyta lykilorði og setja inn andlitsmynd í stillingum.

„Stillingar“ má finna undir valhnappi efst hægra megin á síðunni. Þar geta innskráðir notendur breytt lykilorði sínu, sett inn andlitsmynd og skráð netfang sitt.

Ef aðgangsupplýsingar glatast geta einungis þeir notendur sem skráð hafa netfang sitt, fengið ný lykilorð með tölvupósti.

Myndir

Hægt er að setja inn myndir á Íslendingabók.

Á upplýsingasíðu notanda er hægt að velja „Myndir“ og því næst „Setja inn mynd“.

Skilgreina þarf hvort um er að ræða mynd af notanda, hópmynd eða mynd af hlutum eða stöðum. Skrá þarf titil myndar og hvenær hún var tekin. Jafnframt er hægt að skrifa myndatexta með nánari upplýsingum.

Hægt er að setja inn myndir af sjálfum sér og ólögráða börnum sínum. Eftirlifandi ættingjar hafa möguleika á að setja inn myndir af látnum einstaklingum. Ef eftirlifandi maki, börn, foreldri eða afkomendur eru til staðar fá þau þessi réttindi, að öðrum kosti færast réttindin til fjarskyldari ættingja þess látna.

Myndirnar birtast á upplýsingasíðu notanda og eru eingöngu sýnilegar nánustu fjölskyldu. Þegar um eigin mynd er að ræða getur notandi valið að „Gera að andlitsmynd”, „Breyta upplýsingum“ eða „Eyða mynd" . Ef smellt er á mynd hjá öðrum stækkar hún og valmöguleikarnir „Athugasemd til skrásetjara” og „Tilkynna mynd” birtast fyrir ofan myndina.  Ef notandi telur að mynd sé óviðeigandi/ósæmileg eða höfundarvarin getur hann bent á það í gegnum „Tilkynna mynd” og berst þá tilkynningin til þess er setti inn myndina og ritstjórnar Íslendingabókar. Mynd er tekin úr birtingu um leið og hún er tilkynnt. Ef notandi telur upplýsingar um mynd ónákvæmar eða rangar getur hann sent athugasemd í gegnum hnappinn „Athugasemd til skrásetjara“.

Ekki er hægt að setja inn myndir, senda inn athugasemd til skrásetjara eða tilkynna þær nema netfang notanda sé skráð hjá Íslendingabók.

Æviágrip

Hægt er að birta æviágrip í Íslendingabók.

Á upplýsingasíðu notanda er hægt að velja „Æviágrip“ og því næst „Skrifa æviágrip“.

Skrá þarf titil æviágrips og hægt er að skrá eða líma æviágripið í textareit fyrir neðan.

Eftirlifandi ættingjar hafa möguleika á að skrifa æviágrip látinna einstaklinga. Ef eftirlifandi maki, börn, foreldri eða afkomendur eru til staðar fá þau þessi réttindi, að öðrum kosti færast réttindin til fjarskyldari ættingja þess látna.

Æviágripið birtist á upplýsingasíðu notanda og er eingöngu sýnilegt nánustu fjölskyldu. Hægt er að senda athugasemd til höfundar æviágrips.

Ekki er hægt að skrifa æviágrip eða senda athugasemd til höfundar nema netfang notanda sé skráð hjá Íslendingabók.

Ábendingar

Hægt er að koma ábendingum á framfæri við starfsfólk Íslendingabókar.

Íslendingabók hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um ættfræði íslensku þjóðarinnar frá landnámsöld til okkar daga. Engu að síður vantar enn nokkuð í safnið. Sumt á einfaldlega eftir að vinna en aðrar upplýsingar er erfiðara að nálgast eins og t.d. afdrif Íslendinga erlendis og upplýsingar um afkomendur þeirra. Við fáum upplýsingar úr þjóðskrá um fæðingar, giftingar og andlát. Búsetuskrá þjóðskrár gefur okkur upplýsingar um tengsl foreldra og barna ef þau búa á sama heimili. Erfiðara getur reynst að nálgast upplýsingar um foreldri barns sem ekki býr á sama heimili og barnið þar sem aðgangur að kirkjubókum er lokaður þar til að síðasta færsla er orðin 50 ára gömul. Notendur hafa verið duglegir að senda okkur ábendingar um tengsl foreldra við börn, svo og Íslendinga og afkomendur þeirra erlendis. Við þiggjum allar slíkar upplýsingar með þökkum. Af því leiðir að Íslendingabók birtir í sumum tilvikum upplýsingar sem ekki koma fram í þjóðskrá eins og t. d. foreldratengsl og dánardaga Íslendinga erlendis.

Hægra megin á upplýsingasíðu notanda má finna valhnappinn „Ábendingar“ og þar birtist form sem nota má til að koma ábendingum á framfæri við starfsfólk Íslendingabókar. 




Ekki er hægt að koma ábendingum á framfæri nema netfang notanda sé skráð hjá Íslendingabók. 

Leit í Íslendingabók

Með leit er unnt að finna hvaða einstakling sem upplýsingar eru til um í Íslendingabók. Hægt er að rekja sig saman við hvern sem er en aðeins er hægt að skoða upplýsingasíðu nánustu fjölskyldu, forfeðra og einstaklinga sem fæddir eru fyrir 1700.

Hægt er að leita eftir nafni, fæðingardegi eða kennitölu. Einnig er hægt að þrengja leit með starfsheiti eða viðurnefni t.d. Þórður Jónsson hreppstjóri og Kristján fjallaskáld. Aðeins er hægt að leita eftir starfsheiti samhliða fullu nafni einstaklings. Einu gildir hvort nöfn eru slegin inn með litlum eða stórum staf. Allur leitartexti er settur inn í eitt leitarsvæði. Ef leitarskilyrði eru mjög rúm eru nöfn fyrstu 150 einstaklinganna birt ásamt ábendingu um að þrengja leitarskilyrðin.

Hægt er að leita að öllum einstaklingum fæddum ákveðinn dag eða nota dagsetningu til þess að þrengja nafnaleit. Ef leitað er eftir dagsetningu, án nafns, verður það að vera full dagsetning. Ekki er hægt að leita að öllum fæddum árið 1900, öllum sem fæddust í janúar 1900 né öllum sem eiga sama afmælisdag.

Dagsetningar verður að tákna með tölustöfum og röðin verður að vera dagur, mánuður, ár. Dagsetninguna 17. júní 1944 má t.d. tákna á eftirfarandi hátt:

170644

17.06.1944

Ef árið er táknað með tveimur stöfum, er ýmist gert ráð fyrir því að það tilheyri 20. eða 21. öldinni. Ef dagsetningin sem slegin er inn getur tilheyrt 21. öldinni án þess að vera fram í tímann, er miðað við 21. öldina, annars þá 20.

Þegar leitað er eftir nafni og fæðingarári manns, er gert ráð fyrir að skeikað geti allt að einu ári. Ef einungis er slegið inn nafn og ártal með mánuði verður að aðgreina mánuðinn og árið.

Hægt er að leita að mönnum fæddum á ákveðnu tímabili. Það er gert með því að slá inn „til“ á milli dagsetninganna sem afmarka tímabilið. Þær dagsetningar geta verið misnákvæmar; leita má að fólki fæddu á ákveðnu árabili, fæddu á milli tveggja mánaða, eða milli tveggja nákvæmra dagsetninga.

Dæmi um leit eftir árabili: 1970 til 1975

Dæmi um leit eftir mánuðum: 05 1965 til 11 1965

Dæmi um leit milli nákvæmra dagsetninga: 01-02-85 til 11-12-95

Ef vafi leikur á fæðingarári þess sem leitað er að má setja slaka á ártalið. Þá er gert ráð fyrir meira fráviki en einu ári. Þeir slakar sem Íslendingabók þekkir eru; „um“ þar sem skeikar 10 árum, () sem gefur 50 ára slaka, og loks „fyrir“ og „eftir“.

Dæmi um leit með 10 ára slaka: um 1932

Dæmi um leit með 50 ára slaka: (1632)

Dæmi um leit fyrir eða eftir ákveðið ártal: fyrir 1250

Samrakning

Notendur geta rakið sig saman við hvern sem er í grunninum. Samrakning birtir stystu ættrakningu tveggja einstaklinga en mögulegt er að til séu aðrar leiðir jafn langar.

Hægt er að velja samrakningu á tvo vegu:

Á upplýsingasíðu einstaklings er hægt að smella á hnappinn „Rekja saman“.

Einnig er unnt að leita að einstaklingi og smella á táknið fyrir samrakningu hægra megin við nafn hans.

Framætt

Notendur geta skoðað framættir fimm ættliði aftur lóðrétt eða lárétt.

Notendur geta skoðað framættir allra einstaklinga sem þeir hafa aðgang að, að mökum undanskildum. Framættartréð sem birtist á skjánum nær fimm ættliði aftur. Bæði er hægt að skoða ættartréð lóðrétt og lárétt. Notandinn getur valið að skoða upplýsingasíðu um sérhvern einstakling í trénu með því að smella á nafn hans eða mynd í ættartrénu. Einnig er hægt að færa músina yfir mynd eða nafn í framættinni og kalla þannig fram stærri mynd ásamt upplýsingum um fæðingardag og dánardag.