Íslendingabók -

Myndir

Notendur hafa tekið þeirri nýjung vel að setja inn myndir á Íslendingabók og merkjum við mikinn áhuga meðal þeirra á að nálgast myndir af forfeðrum og formæðrum.

Varðveist hefur ógrynni ljósmynda af fólki fyrr á tíð hér á landi sem geymdar eru á Þjóðminjasafni Íslands og á héraðskjalasöfnum um allt land. Með gagnagrunninum Sarpi hafa þessar ljósmyndir verið gerðar aðgengilegar fyrir almenning á netinu. Um 50 söfn eru nú aðilar að Sarpi sem er heildarsafn fyrir muni, ljósmyndir, myndlist, hönnun og þjóðhætti. Ekki eru þó allar ljósmyndir skráðar í Sarp sem finna má á héraðsskjalasöfnum.

Mikill fjöldi ljósmynda hefur verið skráðar í Sarp en þær hafa ekki allar verið skannaðar inn enn sem komið er. Hægt er að leita eftir nafni einstaklings eða bæjarheiti og panta mynd í Sarpi eða á ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands og er verðið kr. 2100 fyrir mynd til einkanota. Ekki sakar að geta þess að myndin sé t.d. frá Þjóðminjasafni Íslands upp á heimildargildi hennar síðar meir.

Við viljum brýna fyrir notendum almennt að virða höfundarétt ljósmynda og annarra mynda.