Á 19. öld hófust flutningar Íslendinga til Vesturheims. Þeir miklu þjóðflutningar áttu sér undanfara í ferðum mormóna til Utah og Brasilíuferðunum svokölluðu en Íslendingar voru langt í frá eina þjóðin sem heillaðist af hugmyndinni um að nema land í vestri. Upp úr 1840 jukust flutningar fólks til Vesturheims frá Evrópu og þá sérstaklega frá Írlandi. Evrópubúar fluttu til Argentínu, Brasilíu og Kanada en þó mest til Bandaríkjanna. Ýmsar ástæður lágu þar að baki eins og þrengsli með landsvæði, uppskerubrestur, slæmt árferði og ævintýraþrá. Tilkoma gufuskipanna upp úr miðri 19. öld auðveldaði einnig alla flutninga á milli heimshluta og verð á fargjöldum tók að lækka. Ferðir til Vesturheims náðu hámarki um 1870 og stóðu til ársins 1914. Upphaf fyrri heimsstyrjaldar markaði endalok hinna miklu fólksflutninga frá Evrópu til Vesturheims en þeim var þó hvergi nærri lokið.
Fyrstu vesturferðir Íslendinga tengdust trúboði mormóna í Vestmannaeyjum. Tveir íslenskir nemar kynntust mormónatrú í Kaupmannahöfn, þeir sneru aftur heim árið 1851 og tóku að boða trúna í Vestmannaeyjum. Samúel Bjarnason, tómthúsmaður, gerðist prestur mormóna hér á landi og flutti ásamt eiginkonu sinni og nokkrum öðrum til Utah í Bandaríkjunum árið 1854. Nam hann land í Spanish Fork í Utah þar sem fleiri Íslendingar áttu eftir að setjast að. Samúel kom aftur til Vestmannaeyja árið 1872 ásamt Lofti Jónssyni og varð þeim talsvert ágengt í boðun hins nýja siðar því þónokkur hópur fólks tók mormónatrú og enn fleiri fluttu til Utah allt fram til aldamóta.
Um 1830 hófust flutningar fólks frá Evrópu til Brasilíu. Auglýsingar um landsvæði þar hafa borist hingað til lands því árið 1861 lögðu þrír menn af stað úr Þingeyjarsýslu áleiðis til fyrirheitna landsins. Fyrst var komið við í Kaupmannahöfn og úr varð að einungis Kristján Guðmundsson Ísfeld, smiður frá Vaði, S-Þingeyjarsýslu, hélt ferðinni áfram árið 1863. Skömmu síðar fylgdu fleiri í kjölfarið og alls voru það 39 Íslendingar sem fluttu til Brasilíu á árunum 1863-1873. Fleiri höfðu hug á Brasilíuferð en skipaferðir þangað brugðust eins og til dæmis árið 1873 sem stöðvaði tæplega 600 Íslendinga sem voru skráðir þangað en fengu ekki far.
Nokkrir Íslendingar fóru til Vesturheims árið 1870 en fyrstu skipulögðu ferðirnar hófust þó ekki fyrr en þremur árum síðar. Íslendingar fengu veður af vesturferðum í gegnum bréf William Wickmann, dansks verslunarmanns á Eyrarbakka, sem flutti til Bandaríkjanna árið 1865. Wickmann settist að í Milwaukee í Wisconsin, Bandaríkjunum og þangað fóru einmitt fyrstu íslensku vesturfararnir. Kanadaríki var stofnað árið 1867 og var landið að mestu óbyggt á þeim tíma. Reyndu Kanadamenn að lokka til sín innflytjendur með ýmsum kostaboðum. Sigtryggur Jónasson, skrifari amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal, fór einn síns liðs til Vesturheims árið 1872 og var fenginn til að finna heppilegan stað fyrir íslenska vesturfara. Fyrir valinu varð svæði fyrir norðan Winnipeg sem fékk heitið Nýja Ísland. Fyrsti íslenski hópurinn settist þar að haustið 1875 og þar reis Gimli sem varð höfuðstaður Nýja Íslands. Allt fram til ársins 1897 gátu einungis Íslendingar fest sér þar land og var þetta sjálfstjórnarsvæði til ársins 1887 þegar það færðist undir Kanada. Auk Nýja Íslands settust íslensku vesturfararnir einnig að í Manitoba og Saskatchewan í Kanada. Margir vesturfarar fóru einnig til Bandaríkjanna og settust að í Minnesota, Norður-Dakota og víðar.
Fjöldi íslenskra vesturfara á tímabilinu 1870-1914 hefur verið á bilinu 15.000-20.000. Íslendingar alls staðar af landinu fluttu til Vesturheims en langflestir þó frá Norðausturlandi. Í Íslendingabók er leitast við að greina frá afdrifum þeirra sem fóru frá Íslandi. Sú vinna stendur enn yfir og er engan veginn lokið. Sífellt fleiri heimildir um íslenska vesturfara í Bandaríkjunum og Kanada eru gerðar aðgengilegar á netinu sem auðveldar þá vinnu.